Saturday, August 21, 2010

Eitt bros í einu

Ég skrifaði þessa stuttu sögu einhverntíma og hef í raun ekkert farið yfir hana eða neitt. Langaði bara að skella henni inn. Vona að þið njótið :)


Eitt Bros í einu

Það er svo skrýtið hvernig líf manns getur breyst á einu andartaki. Þegar maður upplifir þessi sjaldgæfu augnablik þegar lífið kemur manni í opna skjöldu og færir manni tækifæri til að breytast. Maður heyrir svo margar sögur af því hvernig fólk verður ástfangið og sögurnar eru flestar líkar. Mín saga er eilítið frábrugðin öllum hinum. Ég var hrifsaður af ástinni og það var besta faðmlag lífs míns. Ástin læðist inn í hjartað þegar maður býst síst við því.


Þetta átti að verða venjulegt kvöld. Ég hafði hugsað mér að drekka nokkra bjóra með strákunum, hlæja og gera grín að fólkinu sem fer niður í bæ í þeim eina tilgangi að því er virðist að gera sig að fífli. Þær væntingar voru ekki uppfylltar. Í staðinn fékk ég að upplifa óvenjulegasta og eftirminnilegasta kvöld lífs míns.

Ég sá henni bregða fyrir nokkrum sinnum áður en hún kom upp að mér. Hún virtist vera ein á ferð sem mér þótti óvenjulegt. Hún var með ljósar krullur sem náðu langt niður á bak og fallegar fylltar varir. Hún var í frjálslegum sumarkjól og hælaskóm. Mér þótti hún svo falleg að ég skimaði um öðru hverju í þeirri von að fá að líta á hana. Skyndilega kom hún svo aftan að mér, greip í höndina mína og sagði:” Komdu með mér.” Ég gekk burt með þessari ókunnu stelpu og heilinn minn fékk hvorki tóm til að bregðast við né kveðja vini mína. Hún leiddi mig út af hávaðasömum staðnum og blíður sumarvindurinn tók á móti okkur. Á sama tíma kyssti miðnætursólin okkur á kinnina eins og fyrirboði þess sem koma skyldi. Mér fannst andartakið svo viðkvæmt að ég hætti ekki á að rjúfa þögnina. Ég leyfði henni að ráða för með mjúkri hendi sinni og fól mig henni á vald. Hún leiddi mig þó nokkra stund og virtist vita algjörlega hvert hún ætlaði. Þegar við gengum inn í almenningsgarð sem ég hafði aldrei áður séð stoppaði hún, sleppti hönd minni og settist niður í grasið. Mér datt ekkert annað í hug en að setjast við hlið hennar og þá mætti ég augnaráði hennar. Blikið í augunum var blítt og dularfullt. Mér fannst ég enn ekki hafa rétt á því að tala og beið því átekta. Eftir nokkra stund sagði hún:” Mig langar til að biðja þig um greiða.” Ég kinkaði kolli enn dálítið vankaður af öllu saman. “Mig langar til að biðja þig um að þegja með mér.” “Ha?” sagði ég og það var sem ég rankaði við mér úr dái og fyndi skyndilega til þarfar að spyrja hana óteljandi spurninga. Sú fyrsta sem mér datt í hug var:”Hver ertu?” Hún brosti lítið eitt og sagði svo:”Það kemur seinna.” “Afhverju viltu þaga með mér?” spurði ég og tók þá eftir því að augun hennar voru skærgræn. “Mig langar til að deila með þér óvandræðalegri þögn og einfaldlega njóta þess að vera hér, með þér, án allra spurninga eins og afhverju þetta og afhverju hitt.” Sagði hún hristi hárið frá andlitinu. “Ég vil frekar að þú spyrjir sjálfan þig, afhverju ekki að þaga með ókunnri manneskju.” Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu og ég lagðist því í grasið og þagði. Hún lagðist við hlið mér og angan hennar fyllti vit mín. Mér fannst ég skyndilega ölvaður þrátt fyrir að ég hafi fyrir löngu drukkið síðasta áfengisdropann. Svona lágum við lengi, hlið við hlið, án þess að segja eitt aukatekið orð. Þrátt fyrir það, fannst mér ég tengjast henni á dýpri hátt en orð hefðu nokkurn tíma fengið til. Öðru hverju leit ég á þessa leyndardómsfullu stelpu og sá að á andliti hennar leyndist örlítið bros eins og að ekkert í heiminum gæti skaðað hana. Eins og að allt hefði rétt í þessu fallið á rétta braut. Brosið var smitandi og ég lokaði augunum og fann fyrir djúpstæðum friði. Ég hefði getað legið með henni á þessum stað þar til sjálfir vindar eilífðarinnar hefðu komið og blásið okkur í burtu, einu brosi í einu.

Eftir að því er virtist heila eilífð sem var þó ekki nógu löng, bærðust varir hennar og hún mælti:” Ég þarf að segja þér leyndarmál.” Orð hennar mættu eyrum mínum eins og blóm sem bærist í vindi. “Ég hef séð þig í endurteknum draumi frá því ég var barn og þegar ég sá þig í kvöld uppgötvaði ég að ég hef verið ástfangin af þér frá því áður en ég vissi að þú værir til” Hún andaði djúpt inn, leitaði að hönd minni með sinni eigin. Hún læsti fingrum sínum um mína og kreisti létt.


Við lágum tvö í grasinu og horfðum upp í himininn. Golan hreyfði við trjánum og mér fannst sem laufin sungu. Söngurinn var tileinkaður okkur tveim. Henni og mér. Ég reisti mig upp, horfði í augu hennar og sá inn í eilífðina.

No comments:

Post a Comment