Thursday, April 1, 2010

Náttmatur

Varð bara að deila þessu með ykkur, var svangur eina nóttina og bjó mér til náttmat úr því sem var til í ísskápnum. Ég er ekki með nákvæmar mælieiningar fyrir hráefnin, enda er þetta svolítil slump-uppskrift. Þið gerið bara það besta úr því sem þið hafið og leyfið innsæinu að taka á sig form teskeiða og desílítra.

hráefni:
Einn poki hrísgrjón
Bacon
4-6 sjallot-laukar, eða einn miðlungs stór rauður laukur
2-4 hvítlauksgeirar (eða meira þar sem meiri hvítlaukur gerir bara gott)
Milt curry paste eða einhver góð indversk krydd
(ef til vill tvo eða þrjá sveppi (góða portobello sveppi eða eitthvað álíka)
1 egg

Aðferð:
Setjið hrísgrjónin í sjóðandi vatn og leyfið að sjóða í 12-15 mínútur. Skerið baconið í fína bita (svipað eins og hakk), steikið í smá olíu þangað til að það er farið að brúnast. Bætið þá við lauknum og hvítlauknum og leyfið öllu að malla saman og kela smá á pönnunni. Ef að þið viljið skella sveppum inní blönduna er ágætt að steikja sveppina sér í smjöri við miðlungshita og svo bæta þeim við þegar þeir eru steiktir. Þegar laukurinn er farinn að brúnast og farinn að gefa frá sér sæta lykt, bætið þá sirka einni matskeið af curry útí pönnunni, stillið á lágan hita og leyfið að malla.

Takið stóra plast skál, brjótið eggið útí og þeytið með gaffli til að blanda saman rauðu og hvítu, bætið útí chilidufti og grænu kryddi að eigin vali (mér finnst basilíka og oregano passa ágætlega) bætið við ögn af grófu salti og myljið örlítið af góðum pipar út í eggjablönduna.
Þegar hrísgrjónin eru soðin takið þau úr pottinum og skiljið frá vatnið í sigti. Skellið síðan grjónunum útí eggjablönduna og blandið vel saman með gafflinum og passið að eggið kekkjist ekki mikið heldur blandist vel saman (eggið bregst við hitanum úr grjónunum með því að þykkna)
Takið þá baconið og laukinn úr pönnunni og setjið í skál. Skellið grjónunum með eggjablöndunni á pönnuna og steikið við miðlungslágan hita þangað til að eggjaþeytingurinn steikist smá. (Þarna blandast saman góða bacon fitan með ólívuolíunni við grjónin og gefa þeim unaðslegt bragð. Þegar grjónin eru búinn að steikjast í sirka mínútu eða svo bætið þá baconinu og lauknum við á ný og leyfið þeim að skiptast á sögum og bröndurum í smá tíma. Setjið loks allt batterýið í djúpa skál og skreytið með ferskum kóríander eða öðru fersku kryddi. Njótið með ísköldu íslensku vatni.
Hér er ekkert heilagt og um að gera að bæta við einhverju ef manni dettur eitthvað sniðugt í hug. Hér er hugsunin að nýta það sem er til staðar í eldhúsinu og bara gaman að leyfa ímyndunaraflinu að reika.
Verði ykkur að góðu!
Kv. Þórður Sigurðarson

No comments:

Post a Comment