Friday, November 20, 2009

Liðnir Tímar

Sæl verið þið öll! Sá sem heilsar ykkur biðst velvirðingar á framlengdri töf á nýjum bloggum. Afsökun mín er einföld, ég hef ekkert komist í tengsl við umheiminn vegna þess að ég og skólafélagar mínir höfum verið í reisu. Tónleikareisu. Tónleikaferðalagi! Það er búið að vera gaman en afar lýjandi, og það var afar huggulegt að komast í helgarfrí til Kristínar frænku í Hønefoss og sofa svona til tilbreytingar.
Við lögðum af stað klukkan hálf sjö á mánudagsmorgni og keyrðum suður á bóginn. Við enduðum í Kristianssand en stoppuðum í mismunandi menntastofnunum og kirkjum til að skila af okkur músík sem seinustu tvær vikur höfðu farið í að æfa. Dag hvern var svo haldið í smá túra til bæja á suðurlandinu til að spila og hafa gaman, aðallega að hafa gaman því þar sem svo margir tóku þátt hafði hvert atriði kannski 10 mínútur, og því ekki möguleiki á að spila mörg lög á hverjum tónleikum. En stemningin í hópnum var ótrúleg og það er hreinlega ótrúlegt að sjá hvað unga fólkið í dag hefur mikla orku. Ég persónulega skil ekki hvernig þetta ofur-fólk getur staðið upp klukkan tæplega sjö, spilað á fjórum tónleikum, sett upp fyrir, og gengið frá eftir alla tónleikana, borðað standandi eða í rútu, komið svo heim eftir miðnætti, og þá loksins setjast niður við mal og skemmtun til hálf þrjú, þrjú. Þórður litli var sofnaður áður en hugtakið svefn náði að mótast í þokukennda mistrinu sem umlukti heilann. En svona lífsstíll er afar óhollur því að ég borðaði afar einhæfan kost, brauð með sultu og appelsínusafi. Reyndar leyfði ég mér það að fá einn gamaldags kúluís á litlu krúttulegu kaffihúsi í Lillesand. Á fimmtudaginn var mál að halda heim og löng rútuferð í vændum. Ég og André urðum eftir í Osló til að hlýða á frábæra tónleika í Norges Musikhøgskole. Tveir heimsklassa kontrabassaleikarar, teknísk leyndardómsfull nútímaklassík og brauð með spægipylsu, osti og gúrku. Hvað getur farið úrskeiðis með þessa afþreyingarblöndu. Um kvöldið tók ég svo rútuna til Honefoss til að vinda ofan af mér andlega. Ég hef fjóra góða daga til að undirbúa mig fyrir síðasta sprettin í skólanum fyrir jólafrí. Svo kem ég heim 16. desember og auðvitað hlakka ég til. Mig dreymir orðið ansi oft að ég sé að labba niður skólavörðustíginn frá Hallgrímskirkju, veit ekki hvernig ég á að túlka hann en ég held að þetta sé orgeldraumur!
Veturinn er kominn í Gjovik og það er ekkert að því, skammdegið hér í Noregi er öðruvísi en á hinu afkáralega tímaskipta Íslandi. Þar sem það birtir afar snemma hérna þá er það ekki eins slæmt og heima þar sem maður þarf að vakna í myrkri og bíða fram að hádegi til að sjá til sólar. Ég held það hafi mikið að segja þegar maður getur vaknað í birtu og tekið inn D- vítamín strax.
Nú hef ég ekkert hreyft mig í viku vegna tónleikaferðalagsins og það er ekki gott að blanda því við eintómt brauðát. Hlakka til að komast aftur í hlaupin á mánudaginn þegar ég kem aftur til Viken.
Allt gott að frétta þótt lítið sé, Þórður glaður í föðurlandi með te biður að heilsa ykkur.
kveðja,
Þórður Sigurðarson

2 comments:

  1. Hljómar ótrúlega spennandi þetta tónleikaferðalag... Vonandi færðu svo eitthvað GOTT að borða... :) Þú getur allavega hlakkað til jólanna og fá bæði mömmu, og pabbamat! Kannski jafnvel sveittan borgara a la Katla! Sjáum til! Ísland biður að heilsa.

    ReplyDelete