Tuesday, January 19, 2010

Það að vera maður.

Að ganga einn með sjálfum sér niðri á strönd getur verið yndisleg upplifun og hrein upplifun finnst mér vera hið æðsta af öllum tilverustigum. Við erum flest alltof upptekin við að skipuleggja það sem enn á eftir að koma. Spyrjið ykkur: Hver er tilgangurinn með því að helga líf sitt því að úthugsa líf manns með tilliti til perónulegra væntinga og þess sem við eigum enn eftir að upplifa ef við stöldrum ekki við í þeim sporum sem við höfum fetað þangað til nú. Er ekki nútíðin framtíð fyrri tíma? Af hverju eiga svo margir erfitt með að njóta þess sem skipulagning fyrri tíma hefur leitt af sér. Afhverju eiga svo fáir auðvelt með að njóta þess sem þarfnast engrar skipulagningar. Lífið er spuni og lykillinn að því að njóta spuna er að gleðjast yfir hinu óvænta.
Ég hef lengi velt því fyrir mér hvaðan þessi árátta mannsins til að skipuleggja kemur. Hún er eitt af því sem skilur okkur frá öðrum lífverum þessarar plánetu. Sum dýr þurfa þó að "skipuleggja" líf sitt með tilliti til árstíðanna og slíks en það er nánast eingöngu nauðsynlegt til að lifa af hina endalausu baráttu hinna lifandi. Ég veit ekki hvort það sé óþarflega neikvæð sýn á manninn, en ég held að einmanakennd okkar hafi neytt okkur til að skipuleggja líf okkar svo við þurfum ekki að vera óánægð með það sem við höfum nú, því það getur breyst. Erfiðleikarnir hafa þvingað okkur til að skilgreina líf okkar sem röð af ótilkomnum atburðum. Þannig forðumst við hið eilífa vandamál hvers þess sem er á lífi, nefnilega það hvað það er erfitt... að vera á á lífi. Það eru merkilega fáar manneskjur sem sætta sig einfaldlega við það að upplifa, finna fyrir því að það er á lífi. Dvelja í nútíðnni og leyfa morgundeginum að eiga sinn tíma.
Mér finnst allavega mikilvægt að hugsa um það hvað hver stund merkir fyrir mig sem persónu og reyna að læra eitthvað af henni. Hvað höfum við í raun annað en það sem hvert augnablik ber í skauti sér. Lífið er óvíst og plön okkar ganga ekki alltaf upp.
Njótið lífsins, og í því felst að njóta hvers líðandi augnablik, hverrar sekúndu af þesu stutta lífi. Þetta krefst þolinmæði og þrotlausrar vinnu við endurröðun á hugsunarhætti manns sjálfs. En það er þess virði!

Heimspeki sú sem lifað hefur lengi er oftast nokkuð klók með tilliti til þeirrar viðkvæmu lífveru em ritaði hana og ein setning skýtur niður í kollinum mínum:"Carpe Diem!"
(Hann kemur nefnilega ekki aftur)

Þórður Sigurðarson

1 comment:

  1. Takk fyrir áminninguna. Alltaf gott að vera minntur á núið.

    ReplyDelete