Tuesday, January 12, 2010

"Nýjir" straumar í músík.

Sæl verið þið öll! Maður, drengur, gutti jafnvel, heilsar ykkur á þessu þriðjudagskvöldi með gleðifréttir. Fagnið og kallið upp í himininn, því fagnaðarerindið hið seinna mun ritað, hér og nú!
... Nei kannski ekki alveg, en ég er alvarlega ánægður með uppgötvanir mínar. Flestir tónlistarmenn og kannski bara flestir, hafa upplifað það að uppgötva einhvern óvæntan þráð í prjónamynstri atvinnugreinar sinnar, sem lýkur upp hurðum að herbergjum algjörlega ókönnuðum fylltum af dásamlegum leiðum til að endurhugsa "híbýli" sín.
... Þetta þarf ekki að virðast merkilegt, og oftast er það ekki þannig fyrir aðra en mann sjálfan, en þegar maður lendir í þessu er maður svo upprifinn af fegurð listarinnar að mann langar til að helga sig eilífð stjarnanna og gefa sig á vald listagyðjunnar!

Nú það sem ég uppgötvaði var tenging milli tónlistarinnar sem ég kann best að meta, nefnilega, jazz og klassík. Nú snillingarnir sem fengu mig til að átta mig á þessaum lítt notaða stíg í átt að tónlistarlegri óhlutdrægni, voru Karlheinz Stockhausen og André Kåsen herbergisfélagi minn. Karlheinz Stockhausen var einn af höfuðpaurunum á bak við "Intuitive Music" eða hugsýnistónlist eins og ég kýs að kalla það á okkar ylhýra. André er auðvitað snillingurinn herbergisfélagi minn sem kynnti mig fyrir þessari snilli og hjálpar mér(og sér sjálfum)við að finna rödd mína í þessari tónlist. Hugsýnistónlist er þannig "skilgreind" að listamaðurinn þar og þá stundina skiptir mestu máli við flutning hennar. Þ.e. hugarástand og innsæi flytjandans sé það sem skapar grunninn fyrir tónlistarsköpunina. Verk af þessu tagi gæti innihaldið einfaldar leiðbeiningar sem reynast ekki svo einfaldar þegar á hólminn er komið, eða þegar á sviðið er komið. T.d. Tæmdu hugann, hugsaðu um ekkert og þegar þú hefur náð þessu ástandi skaltu byrja að spila. Þegar hugsun slær niður í kollinum á þér skaltu hætta að spila. Þegar þú hefur náð hugsanaleysinu á nýjan leik skaltu halda áfram. Og svo gengur þetta svona koll af kolli.
Það sem er svo stórkostlegt við þessa að tónlist er að þótt hún sé á ákveðinn hátt ný-klassík er hún svo miklu meira. Maður kýs í raun hvað maður vill spila og maður getur blandað inn hvaða tónlistaráhrifum sem er. Í raun er afraksturinn hjá mér mjög tengdur free-jazz en með einhvernveginn allt öðrum áherslum. Allar tilfinningar, allt sem hefur gerst yfir daginn eða jafnvel í gegnum árin flæðir í gegnum þig, yfir í hljóðfærið með algjörlega óvæntri útkomu. Það er svo erfitt að útskýra þetta að það tekur á fyrir mig að skrifa þennan texta.
Mig langaði bara að segja ykkur frá því að hvar sem þið eruð, hvað sem þið eruð að bauka við. Það er aldrei of seint að uppgötva eitthvað nýtt í því sem þið í grunleysi ykkar hélduð að þið þekktuð vel. Það er aldrei of seint að verða uppnuminn af fegurð hins einfalda. Aldrei of seint að njóta þess sem maður upplifar. Það er aldrei of seint að gæða lífi manns neistanum á nýtt.

bestu kveðjur, Þórður Sigurðarson
(By the way, mikið er yndislegt að skrifa á íslenskt lyklaborð!)

4 comments:

  1. Ótrúlega áhugavert, þakka fyrir frábært skrif!

    ReplyDelete
  2. Haha, mér tókst að klúðra sex orða setningu, hef verið svo uppnuminn. Kenni engu öðru um en blogginu!

    ReplyDelete
  3. Ég er mjög spennt að heyra afraksturinn.
    (Hint: Mér finnst gríðarlega skemmtilegt að fá geisladiskagjafir frá þér og ég útskrifast í vor... :) )

    Ég hef alltaf verið hrifnust af því þegar þú spilar beislislaust. Mér finnst þú svo mikill "performer"; það er svo gaman að fylgjast með þér spila og fá að kíkja örlítið inn í þinn hugarheim.

    ReplyDelete
  4. Takk fyrir að deila þessari upplifun Þórður, birtir yfir vestfirskum firði í sólarleysi!!!

    ReplyDelete